150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

breyting á þingfundasvæði.

[15:01]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill geta þess að frá og með deginum í dag verður unnið samkvæmt endurskoðaðri starfsáætlun. Í dag taka einnig gildi nýjar takmarkanir í samkomubanni og hafa því verið gerðar ráðstafanir til að sem flestir þingmenn og ráðherrar geti verið á þingfundi samtímis. Leitað var ráða hjá sóttvarnalækni varðandi þessi atriði og kom hann ásamt þríeykinu öllu í þinghúsið til að skoða aðstæður.

Þingfundasvæðið hefur verið stækkað og er nú efrideildarsalur ásamt báðum herbergjunum austur og vestur af þingsalnum, þau sem í daglegu tali eru kölluð skjalaherbergi og ráðherraherbergi, hluti af þingfundasvæðinu. Setið verður í öðru hverju sæti í þingsalnum og bil milli sæta og í hliðarsölum tekur mið af nálægðarreglunni. Sætaskipan er frjáls, þingmenn eiga ekki fast sæti í þingsal eða í hliðarherbergjum. Ráðherrar hafa einir afnot af ráðherrabekkjum og viðbótarsæti fyrir þá eru í skjalaherbergi.

Atkvæðagreiðslur verða áfram með sama sniði og undanfarnar vikur, a.m.k. fyrst um sinn. Verið er að skoða möguleika á þráðlausu atkvæðagreiðslukerfi og niðurstaða í það mál fæst væntanlega innan ekki langs tíma.