150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[17:58]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn. Þingmaðurinn veltir hér upp örplastsmengun sem er rétt að kemur m.a. vegna þvotta á fötum úr plasti. Úttekt sem við létum gera í umhverfisráðuneytinu á því hvaðan mest af örplastinu kæmi leiddi m.a. í ljós að þetta er einn af þáttunum, alveg hárrétt, en mest kemur frá hjólbörðum. Það er slit sem verður á vegum og það fer þá í frárennsliskerfin eftir því hvernig þau eru uppbyggð eða þá í ofanvatnið. Spurningin er hvernig hægt sé að finna lausn til að þetta örplast berist ekki með fráveitunni til sjávar. Það er hægt að gera með ýmsum hætti, t.d. er hægt að sía ofanvatnið þannig að örplastið sé tekið frá, hafa settjarnir og annað slíkt. Ég vonast til þess að koma í þessari viku með frumvarp til breytinga á lögum um fráveitur þar sem við erum að byrja á að fjalla um með hvaða hætti við getum stutt við þann málaflokk sem er virkilega þörf á. Þar horfum við til þess að m.a. verði hægt að ráðast í það sem snýr að örplastsmengun.

Sá kostnaður sem leggst á neytendur er fyrst og fremst kostnaður sem neytendur geta forðast með því að nota fjölnota vörur. Það er kannski það góða við þetta, eins og var með plastpokana, að gjaldið er vissulega sett á vöruna til að reyna að búa til hvata til að nota fjölnota vörur. Það getum við öll gert þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur af því að þetta verði vandamál.