150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[19:16]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns hafa menn, eins og ég fór yfir í mínu máli, verið að setja hornin í fyrirkomulagið um nokkurt skeið, ýmsir aðilar, og farið er yfir það í greinargerð með frumvarpinu. Þegar stjórnin lagði til að þetta kerfi yrði lagt af fannst mér mikilvægt að kannað yrði hvort það hefði virkilega engin áhrif. Þess vegna var annars vegar Capacent fengið í verkið og hins vegar Byggðastofnun til að greina það og niðurstaða þessara aðila er að nauðsynlegt sé að hafa einhvers konar kerfi í gangi og það er mat þeirra að með þeim hætti sem hér er verið að setja af stað í staðinn, verði tryggt að hægt sé að koma í veg fyrir það sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. að hugsanlega leggist olíudreifing af til einhverra staða, vegna þess að það væri dýrara, eða þá að verðið yrði hærra. Tilgangur kerfisins er að tryggja að til slíkra staða verði áfram dreift eldsneyti á sambærilegu verði og við þekkjum. Það er hugmyndafræðin og við leggjum af mjög flókið og dýrt stjórnsýslulegt kerfi sem að mati margra er úrelt og stenst ekki tímans tönn.

Varðandi fyrri spurninguna hefur það komið fram áður að núverandi kerfi nær ekki til jöfnunar á eldsneyti í millilandaflugi og það er til heil skýrsla frá Háskólanum á Akureyri sem svarar ekki spurningunni mjög skýrt hvort það sé nauðsynlegt. Þess vegna þarf frekari vinna að eiga sér stað og við ferðamálaráðherra höfum rætt það að koma henni á til að svara þeim spurningum. Það er hins vegar hægt að gera það líka með fleiri aðferðum, eins og fram kemur í þeirri ágætu skýrslu sem unnin var af Háskólanum á Akureyri, m.a. að olíufyrirtækin sjálf gætu tekið þátt í því að jafna þann kostnað (Forseti hringir.) milli landsvæða. Það er fleira sem þar kemur til eins og (Forseti hringir.) birgðageymsla og geymsla á eldsneyti á hverjum flugvelli fyrir sig sem er kannski stærsta málið.