151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

lax- og silungsveiði.

345. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, minnihlutavernd o.fl.

„Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Víði Smára Petersen.

Nefndin ræddi skipan matsnefndar en í a-lið 3. gr. frumvarpsins er lagt til að 1. mgr. 44. gr. laga um lax- og silungsveiði verði breytt og fallið frá skilyrði um að tveir nefndarmenn skuli hæfir til að gegna embætti héraðsdómara og að Hæstiréttur tilnefni annan þeirra í matsnefnd. Lagt er til að Hafrannsóknastofnun, í stað Hæstaréttar, tilnefni nefndarmann, en áfram er gert ráð fyrir að ráðherra skipi hinn án tilnefningar. Meiri hlutinn telur mikilvægt að nefndarmenn hafi þekkingu sem nýtist í störfum hennar. Með því að Hafrannsóknastofnun fái rétt til tilnefningar sé tryggt að innan nefndarinnar verði til staðar fiskifræðileg þekking, sérþekking á lífríki vatna og straumvatna sem geti reynt á m.a. í tengslum við álitaefni í arðskrám. Þá bendir meiri hlutinn á að þrátt fyrir að fallið sé frá skilyrði um að nefndarmaður hafi hæfi héraðsdómara geti ráðherra við skipun í nefndina litið til þess að nefndarmaður uppfylli slík skilyrði, eða hafi þekkingu á þeim lögum sem nefndin vinnur eftir.“

Þetta var það sem kom inn til atvinnuveganefndar milli 2. og 3. umr. vegna skipunar matsnefndar. Hitt atriðið sem við tók á milli 2. og 3. umr. eru bótaákvæði í 5. gr. þar sem við ræddum þá grein frumvarpsins. Þar er lagt til að koma á sérstakri bótaábyrgð þeirra sem greiða atkvæði um ráðstöfun veiði samkvæmt nýrri 3. mgr. 40. gr., sbr. a-lið 2. gr. frumvarpsins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Hin almenna bótaregla í 49. gr. laganna gerir ekki ráð fyrir bótaskyldu komi ákvörðun, sem ekki byggist á málefnalegum forsendum, í veg fyrir að veiðiréttarhafar njóti eðlilegs arðs af hlunnindum sínum. Ákvæðinu er ætlað að vera ákveðinn varnagli til viðbótar hinni almennu bótareglu í 49. gr. laganna.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið skrifar meiri hluti nefndarinnar, hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður, Njáll Trausti Friðbertsson, framsögumaður málsins, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson og Haraldur Benediktsson.