143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

Héðinsfjarðargöng og Múlagöng.

470. mál
[17:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og eins þakka ég hv. þm. Kristjáni Möller fyrir hans innlegg hér.

Það er alveg rétt, og eitt af því sem fram kom í svörum ráðherra, að það hefur orðið gríðarleg umferðaraukning sem við sem þarna búum verðum áþreifanlega vör við. Eitt af því sem það hefur í för með sér, eins og ég kom inn á í ræðu minni, er að ekki bara á álagstímum í kringum einhverjar stórhátíðir eða eitthvað slíkt heldur gerist það of oft að umferðin stoppast í Múlagöngum vegna þungaflutninga.

Ég tek undir það með hv. þm. Kristjáni L. Möller að við þurfum eitthvað, aukna ljósastýringu eða eitthvað slíkt, til þess að koma í veg fyrir þetta. En það eru ekki bara þungaflutningar, það þarf ekki nema þrjá bíla með fellihýsi eða einn bíl með fellihýsi og annan með hjólhýsi til að allt sé stopp. Það þarf aukna umferðarstýringu við þessi göng. Ég talaði við Björn Harðarson hjá Vegagerðinni, sem hefur verið í þessum gangaframkvæmdum, sem sagði að það ætti ekki að vera svo ýkja mikið vandamál að koma því við. Mig langar einmitt líka að spyrja hvort það standi til að gera eitthvað slíkt.

Unnið er að miklum endurbótum í öryggismálum núna með því að auka lýsinguna. Þar var bara myrkur og göngin aldrei almennilega fulllýst. Nú er verið að auka lýsinguna sem er vel og setja upp merki líka sem eru upplýst, en það dugar ekki til.

Í framhaldi af þessu langar mig líka að spyrja hvort til standi og hvort hægt sé að koma því inn í áætlanir að taka blindbeygjuna Ólafsfjarðarmegin burt. Hún er hættuleg. Þar hafa orðið umferðarslys. Einhvern veginn bíður maður alltaf með hjartað í buxunum eftir því að þar verði alvarlegt slys. Það er eitt af því sem þyrfti að lagfæra.