149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

utanríkis- og alþjóðamál.

863. mál
[14:32]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að ræða aðeins um sendiráðin. Nú eru sendiráð afskaplega mikilvæg fyrir okkur til að sinna bæði utanríkisviðskiptum og utanríkispólitík. Hlutverk sendiherra er að byggja upp víðtækt tengslanet sem þeir hafa andsvar gagnvart og það er nýtt til hagsbóta fyrir íslensk fyrirtæki og almenning, auðvitað ásamt því að efla okkar hlut í samhengi við fjölþjóðlegar stofnanir á hverjum stað.

Það er mikilvægt fyrir öll ríki að stunda þessa hluti vel og vera öflug í sínum sendiráðum en sérstaklega fyrir minni lönd eins og Ísland. Þess vegna er alltaf ástæða til að spyrja út í hvernig horft sé á uppbyggingu sendiráða til framtíðar. Nú höfum við horft upp á lokun sendiráðs, t.d. í Vínarborg, og í raun ákveðið brotthvarf frá starfsemi í samhengi við ÖSE í því samhengi — það er augljóst að einhver sem er ekki á staðnum getur ekki sinnt því jafnvel og einhver sem er á staðnum. Sömuleiðis erum við með heimasendiherra sem sinna störfum gagnvart ýmsum löndum, t.d. Tékklandi, en komast ekki til landanna nema kannski einu sinni eða tvisvar á ári vegna takmarkaðs fjármagns. Því til viðbótar erum við með sendiherra sem eru með ómögulega stór starfssvæði, þurfa jafnvel að fara á milli heimsálfa.

Auðvitað eru fjármunir takmarkaðir og það sést á þessari skýrslu að ágætisvinna hefur verið unnin í því að reyna að nýta fjármunina betur og efla starfið innan þeirra eininga sem til eru. En mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig ætlar hann að byggja upp til framtíðar þannig að við getum haft öflugra fyrirsvar gagnvart mikilvægum viðskiptaríkjum, gagnvart mikilvægum fjölþjóðlegum stofnunum og öðrum verkefnum sem við sinnum ekki nægilega vel í dag?