150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það eru ánægjulegar fréttir núna dagsdaglega, margar hverjar, góðar fréttir um að smit eru ekki að greinast dag eftir dag. Sjúkdómurinn er í rénun og við erum á réttri leið. Það sýnir að við tókum rétta ákvörðun þegar við lögðum til að þessi leið yrði farin sem við þekkjum öll svo vel og höfum verið upplýst um dagsdaglega. En núna þarf að halda út og við þurfum að muna eftir því að þetta er ekki búið þrátt fyrir að byrjað sé að losa um eitt og annað sem hefur verið bannað. Við sjáum það bara á umferðinni, hvað hún hefur aukist síðustu vikuna, að þetta er allt að falla í hið eiginlega og venjubundna far. Það er margt komið til að vera. Það er margt sem við drögum lærdóm af eftir að þetta ástand verður yfirstaðið. Ég hef nefnt það t.d. að fundir eða störf án staðsetningar hafa fengið nýja merkingu fyrir ansi marga en við landsbyggðarfólk höfum ítrekað kallað eftir því í gegnum tíðina að hægt sé að gera þessa hluti, marga hverja, sama hvar maður er staddur.

Eitt af því sem við treystum á er margs konar nýsköpun, hugvit, verkvit. Við þurfum og erum að styðja við það sem nú þegar hefur komist á koppinn en við þurfum líka að styðja við nýjar hugmyndir. Ég sé það fyrir mér m.a. í lífrænni ræktun, í grænmetisræktun og margs konar þar undir. Þetta er ótrúlegt ástand sem við erum að upplifa, ekki síst þeir sem eru að missa vinnuna og viðurværi sitt, vonandi flestir tímabundið, en engu að síður eru þetta gríðarlega erfiðar aðstæður fyrir marga. Ríkisstjórnin og Alþingi hefur lagt ýmislegt til til að létta undir og gera hlutina bærilegri og þeim aðgerðum er engan veginn lokið. Það er mikilvægt að standa saman sem samfélag og ég hef fulla trú á því að saman munum við rísa úr þessum öldudal og verða enn sterkara samfélag en fyrr. Og svo skemmtilega vill til að í dag er alþjóðlegi handþvottadagurinn, sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur staðið fyrir ár hvert frá árinu 2009 undir yfirskriftinni: (Forseti hringir.) Björgum mannslífum.

Að lokum vil ég óska Samfylkingunni til hamingju með daginn.