150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

vernd uppljóstrara.

362. mál
[15:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri engar athugasemdir við það, auðvitað eiga uppljóstrarar að segja satt. Vandi minn snýr að því að þessi skilningur er til staðar úti í samfélaginu. Það kom alveg fram á fundum nefndarinnar, frá einstaka aðilum sem komu og töluðu við okkur, að svona ófrægingarherferðir væru einhvern veginn í eðli sínu nokkuð sem við vildum ekki vernda, jafnvel þótt það væri satt. Ég hef áhyggjur af því. Það má líka nefna að þegar kemur að því að meta sannleiksgildi megum við ekki gleyma því að það er líka hlutverk fjölmiðla. Ef uppljóstrunin á sér stað í gegnum fjölmiðla eru það fjölmiðlamenn sem spila stóran þátt í öllu sem varðar uppljóstranirnar og heimildarmenn. Það er annar angi af þeirri orðræðu.

Aðalatriðið fyrir mér er að það eitt og sér að þetta líti út fyrir að vera eða sé hægt að mála upp sem einhvers konar ófrægingarherferð eigum við ekki að líta á að sé í andstöðu við að uppljóstrarinn eigi að fá vernd. Það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að uppljóstranir, sem ég geri þá að sjálfsögðu ráð fyrir að séu sannar og byggist á réttum gögnum, a.m.k. að uppljóstrarinn telji þau vera rétt, komist upp á yfirborðið. Ég vona að þetta svari spurningunni.

Athugasemd mín varðar ekki sannsöglina. Ég er þvílíkur aðdáandi sannleikans að ég verð hálfpirraður út daginn ef ég heyri einhvern ljúga hérna í pontu. Það kemur alveg fyrir, hefur komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, því miður. Athugasemd mín snýr hins vegar ekki að því.