151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

skipulögð glæpastarfsemi.

[14:11]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Það er nefnilega svo áhugavert með þá glæpi sem okkur er kennt að vera hrædd við. Ég ólst líka upp í öruggu umhverfi íslensks samfélags eins og fleiri hér inni. Ég ólst upp við það að glæpamenn væru vondu karlarnir, þeir sem væru vondir við börn og gamalt fólk. En þessi orð, skipulögð glæpastarfsemi, eru svo gildishlaðin. Það er ítrekað ýjað að því að um sé að ræða erlend glæpasamtök og jafnvel hryðjuverkasamtök, eða jafnvel sagt beint út. En hvað um þá skipulögðu glæpastarfsemi sem á sér stað fyrir opnum tjöldum; skattaundanskot, skipulögð og stórtæk auðgunarbrot og þjófnað á verðmætum? Það eru brot sem hafa einnig gríðarleg áhrif á samfélagið. Það er starfsemi sem dregur úr lífsgæðum barna og rænir eldra fólk ævisparnaðinum. Það er starfsemin sem tekur auðlindir þjóðarinnar og nýtir þær til eigin hagsmuna og afkomenda sinna og skilar engu af auðlindarentunni til þjóðarinnar. Þetta er skipulögð glæpastarfsemi, framkvæmd af mönnum í jakkafötum og fólki sem við erum alin upp við að við eigum að treysta. Ef við ætlum í alvöru að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi og tryggja öryggi og vernd samfélagsins þá þurfum við kannski að líta okkur aðeins nær. Skipulögð glæpastarfsemi felur ekki bara í sér glæpi framda með byssum úti á götu af fólki af erlendum uppruna. Skipulagðir glæpir eru líka framdir hér á landi af íslenskum mönnum í jakkafötum og það er skipulögð glæpastarfsemi sem þarf að takast á við til að tryggja hagsæld samfélagsins.