151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, stuðning við einkarekna fjölmiðla. Ég verð bara að segja að ég held að þetta sé eitt það vitlausasta sem ég hef orðið var við hér á þingi, að fara að setja einkarekna fjölmiðla, sem eru reknir af forríkum einstaklingum, á ríkisjötuna. Ég óttast að þegar við gerum það einu sinni þá verði þeir þar til eilífðar og að þetta muni kosta það að þessi stuðningur aukist bara. Það sem er annað er að það er verið að bæta þessu við vegna þess að stærsti fíllinn er þegar á markaðnum. Þessi bleiki fíll sem ræður þar öllu, Ríkisútvarpið, ríkisrekið, ræður að stærstum hluta yfir auglýsingamarkaðnum.

Ég spyr: Kom ekki til álita fyrir nefndinni og hefði ekki verið langbest að byrja á þeim enda að taka RÚV af aulýsingamarkaði og gefa samkeppninni þar af leiðandi tækifæri og á sama tíma að taka á erlendum veitum sem eru á auglýsingamarkaðnum og sjá til þess að samkeppnin sjái um að þessi markaður og þeir sem eru á honum lifi eða deyi frekar en að bæta við einkareknum aðilum? Þeir sem fá mest af þessum peningum eru einmitt þessir stærstu miðlar sem eru reknir af forríkum aðilum sem geta rekið þetta áfram án þess að lenda á ríkisjötunni og það ætti ekki að vera neitt vandamál. Eins og ég segi óttast ég að séu þeir einu sinni komnir þangað þá verði þeir þar og að þetta muni velta áfram. Á sama tíma er verið að segja að ekki séu til fjármunir handa fólki sem vantar mat.