Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

922. mál
[16:17]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég vil aðeins koma inn á kostnaðinn, ég held ég hafi gert það hér áður. Þegar við fórum af stað í þessa löggjöf var kostnaðurinn metinn sérstaklega með því að senda út erindi, einhver 700 erindi held ég, til allra aðila sem eru þjónustuveitendur í málefnum barna og kallað eftir því hvað þeir teldu að innleiðing laganna myndi kosta. Síðan var unnin ákveðin hagræn greining á því hverju það myndi skila til baka ef við réðumst í þessa fjárfestingu. Fjárveiting var samþykkt hér á Alþingi til fimm ára, til innleiðingartímans, fyrir nákvæmlega þeirri upphæð. Hluti af því rennur til ríkisins; inn í innleiðingarteymi, inn í Barna- og fjölskyldustofu og fleiri stofnanir. Hluti af því rennur til sveitarfélaga sem úthlutað er með reglugerð sem gefin er út og gefur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga þá reglugerð út. Við höfum einungis gert það einu sinni. Við vorum að gera það í annað sinn á þessu ári og nú erum við að kalla eftir því frá sveitarfélögunum í hvað þau hafa verið að nota fjármunina, hvort þeir hafi nýst sem skyldi o.s.frv., þannig að það getur vel verið að það kalli á endurskoðun. En þar erum við líka að meta ávinninginn: Hver er ávinningurinn af því þegar maður fer til lítilla sveitarfélaga sem eru að innleiða þessi lög og heyrir af því að þau eru byrjuð að loka barnaverndarmálum vegna þau leysast í samstarfi félagsþjónustu og skóla? (Forseti hringir.) Það er gríðarlegur hagrænn ávinningur af því. Þannig að við erum að reyna að átta okkur á þessu núna og þarna er ekkert verið í neinum feluleik. (Forseti hringir.) Við viljum að þetta sé allt opið. Ef það þarf aukna fjármuni (Gripið fram í.) þá verð ég fyrstur manna til að koma til þingsins og segja: Heyrðu, við þurfum örlítið meira. En á bak við það verða þá greiningar og gögn. (Forseti hringir.)

— Afsakaðu, herra forseti, að ég fór fram yfir.