Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[17:56]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er svigrúm fyrir ráðgjafaráð. Hugsunin á bak við tölfræðivinnuna í tengslum við farsældina — vegna þess að menntun er ein meginstoðin í farsæld. Í hugsuninni og uppbyggingunni á henni er menntun ein af þessum fjórum lykilstoðum. Það sem við erum að gera ráð fyrir þar er að ákveðin grunntölfræði meti það hvort einstaklingurinn nái grunni sínum þegar kemur að menntun eða ekki og síðan sé þá rætt hvaða áherslna þurfi að grípa til, ef við þurfum að rétta okkur af í einstaka sveitarfélögum eða einstaka skólum eða annað slíkt þá séu starfandi einhvers konar ráðgjafaráð til að ná því. Þau geta verið sett tímabundið eða varanlega eða eftir atvikum hverjar áskoranirnar eru hverju sinni.

Síðan varðandi samræmdu prófin þá frestuðum við þeim tímabundið vegna þess að það er verið að þróa nýjan matsferil á þessar helstu greinar okkar sem er hugsaður, ekki sem samræmd próf sem eru lögð fyrir heldur meira sem (Forseti hringir.) verkfæri sem hægt er að nýta til þess að vera alltaf að krefja nemandann um að gera aðeins betur á morgun en í dag. En á sama tíma þurfum við að móta okkur sýn á alþjóðlega mælikvarða sem við ætlum að taka þátt í og þá er ég ekki viss um að það sé eingöngu lestur, stærðfræði og þessir þættir. (Forseti hringir.) Hvaða grunnþekkingu þurfum við sem einstaklingar að hafa til þess að takast á við breytingar 21. aldarinnar? Við þurfum (Forseti hringir.) auðvitað að kunna íslensku og lestur og stærðfræði, en það er svo miklu fleira. — Fyrirgefðu, forseti, fyrir fram, af því að ég veit að þú munt skamma mig þegar ég geng hér úr ræðustól.