141. löggjafarþing — 97. fundur,  11. mars 2013.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

651. mál
[14:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Komið hefur fram í þeim ræðum sem fluttar hafa verið í dag af nokkrum talsmönnum meiri hlutans að þeir ætla að fara fyrir ferli sem lýtur að því að vanvirða þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þeir leggja blint traust á næsta þing með einhverri þingsályktunartillögu og frumvarpi sem ekki er bindandi. Það hryggir mig. Ég hélt í einlægni að þau sem hér hafa talað, þar á meðal hv. þm. Árni Páll Árnason og hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir, væru ekki svo einföld að trúa því að hægt væri að fara í samninga við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn um eitthvert samráð um að við fáum að klára ferlið. Það er ekkert sem bindur hendur næsta þings. Hlutverk okkar var að tryggja að málið færi í lýðræðislegt ferli og að greidd yrðu atkvæði um stjórnarskrána, eins og háttað var til um þjóðaratkvæðagreiðsluna, og síðan leysum við upp þingið. (Forseti hringir.) Ég held að ég verði að greiða atkvæði með tillögunni.