143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tilskipun um varðveislu fjarskiptaupplýsinga.

551. mál
[17:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra:

„Hvernig hyggst ráðherra bregðast við úrskurði Evrópudómstólsins frá 8. apríl sl. um að tilskipun 2006/24/EB um varðveislu fjarskiptaupplýsinga (e. Data Retention Directive) sé ógild?“

Mig langar til þess að hafa smáinngang að þessu eða fylgja þessu aðeins betur úr hlaði. Þessi tilskipun um varðveislu fjarskiptaupplýsinga eða tilskipun um gagnageymd, sem er stundum kölluð svo, á uppruna sinn í því að Evrópusambandið samþykkti þessa tilskipun árið 2006. Það voru í raun og veru viðbrögð við hryðjuverkaárásum í New York, Madríd og London. Þetta er eitt af þeim málum þar sem menn hafa brugðist við með aðgerðum sem heita má að séu viðbrögð við hryðjuverkaárásunum en ganga mjög nærri persónuvernd. Það er mikið umhugsunarefni að mínu viti hvernig menn hafa staðið að því og hvort það er allt í samræmi við alþjóðalög og reglur, en það er annar handleggur.

Í þessu máli er það svo að Ísland hefur ekki innleitt þessa tilskipun en það hefur hins vegar t.d. verið gert í Noregi. Tilskipunin var samþykkt þar með naumum meiri hluta í norska Stórþinginu og hafa Norðmenn beðið eftir því að Ísland tæki af skarið. Í umræðu í Stórþinginu 7. febrúar árið 2012 spyr þingmaður hægri flokksins, Nikolai Astrup, sérstaklega út í þessa afstöðu Íslands og er gaman að segja frá því að þar nafngreinir hann þann þingmann sem hér stendur og spyr hæstv. utanríkisráðherra Noregs um afstöðu Íslands og hvað valdi því að við höfum ekki samþykkt tilskipunina, en þessi þingmaður hægri flokksins var einmitt andstæðingur þessarar tilskipunar, einn af nokkrum í þeim flokki.

Því hefur verið haldið fram, og það er sjálfsagt alveg rétt, að í 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaganna á Íslandi sé að finna heimild sem jafna megi til þessarar tilskipunar um gagnageymd. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skulu fjarskiptafyrirtæki, í þágu rannsókna sakamála og almannaöryggis, varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði.“

Niðurstaða Evrópudómstólsins 8. apríl sl. fjallar um að þessi tilskipun sé allt of umfangsmikil og allt of alvarlegt inngrip í grundvallarréttindi til varðveislu persónuupplýsinga og persónulífs. Þess vegna er mjög mikilvægt að spyrja að því hér (Forseti hringir.) og setja í samhengi fjarskiptalögin annars vegar og tilskipunina hins vegar: Hvernig (Forseti hringir.) ætla íslensk stjórnvöld að bregðast við þessari niðurstöðu? Er ekki alveg ljóst að ekki verður reynt að fá tilskipun um gagnageymd samþykkta? Verður ráðist í breytingar á fjarskiptalögunum?