151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við viljum hafa sterka fjölmiðla hér á Íslandi og fjölbreytta. Ég vil taka það fram að þó að ég hafi ekki skrifað undir nefndarálitið styð ég meginefni frumvarpsins og markmiðið með því en ég og þingmaður með mér, við höfum breytingartillögu við nefndarálitið.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í þessa tímabindingu sem vefst dálítið fyrir mér, breytingartillögu meiri hlutans um að tímabinda úrræðið. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Í ljósi þessa telur meiri hlutinn að svo stöddu ástæðu til að um verði að ræða tímabundið stuðningskerfi sem gildi til 31. desember 2022 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni árin 2020 og 2021.“

Mér finnst rökstuðningurinn fyrir þessu vera óljós og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ekki sé hætt við því að þetta geri rekstrarumhverfi fjölmiðla erfiðara en ella og jafnvel óþarflega erfitt vegna þess að náttúrlega minnkar fyrirsjáanleiki í rekstrinum að sama skapi fyrir þessa fjölmiðla og verður erfiðara fyrir þá að gera áætlanir.