132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[21:50]
Hlusta

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að pólitískt samkomulag var um að auka fé til Hafró. En það var aldrei pólitískt samkomulag um að taka það úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Það var aldrei pólitískt samkomulag um að taka það úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins.

Ég held að það sé full ástæða til að svara þeirri grundvallarspurningu sem hæstv. ráðherra spurði og sagði að ekki væri svarað, þ.e. hvort ekki ættu neinir peningar úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins, ef í honum hefðu verið 800–900 millj. kr., átt að renna til Hafró. Ég held að hæstv. ráðherra þurfi ekki að spyrja svona. Hann veit betur. Við tókum þessa umræðu í sjávarútvegsnefnd meðan hæstv. ráðherra sat þar, (Sjútvrh.: Svaraðu henni.) um að eðlilegt væri að Hafró eins og aðrir sæktu í þennan sjóð í viðbótarrannsóknir sínar. Ég minni hæstv. ráðherra á textann sem meiri hluti sjávarútvegsnefndar setti í nefndarálit sitt á árinu 2005, þegar gerð var þessi breyting að Þróunarsjóðsfjármunirnir ættu að renna inn í Verkefnasjóðinn. Ég held meira að segja að hæstv. ráðherra sé höfundur að textanum (Gripið fram í.) eins og hann er í skjölum Alþingis, (Sjútvrh.: Er þingmaður þeirrar skoðunar að frumvarpið sé …?) sem segir:

„Gerir frumvarpið ráð fyrir að eignir sjóðsins umfram skuldir renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra verði varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Meiri hluti nefndarinnar er fylgjandi efni frumvarpsins“ — (Sjútvrh.: Vill þingmaðurinn ekki svara?) — „en telur þó ástæðulaust að áskilja í lögunum að andvirði sjóðsins skuli varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar …“

Hv. þingmaður Einar Kristinn Guðfinnsson held ég að sé höfundur að þessum texta. Eftir að við ræddum þetta fram og til baka í sjávarútvegsnefnd á sínum tíma kom þessi niðurstaða. Ég man ekki betur en að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, sem nú er hæstv. sjávarútvegsráðherra, hafi eindregið verið þeirrar skoðunar þá að ekki væri rétt að fallast á textann í frumvarpi þáverandi sjávarútvegsráðherra (Gripið fram í: Hver er skoðun þingmannsins?) sem sagði ósköp hreint að þetta ætti að renna til Hafrannsóknastofnunar. Það var þingmaðurinn hv. Einar Kristinn Guðfinnsson sem (Forseti hringir.) beitti sér fyrir því í sjávarútvegsnefnd að þessu yrði breytt þannig að þetta rynni til annarra (Forseti hringir.) en bara til Hafrannsóknastofnunar.