140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hún er hálfhrópandi, þögnin hjá ríkisstjórnarflokkunum þegar kemur að því að ræða og koma með lausnir á málefnum heimilanna. Það eru nákvæmlega engar raunhæfar lausnir uppi á borðinu og þau kerfi sem sett hafa verið í gang virka ekki. Það hefur margoft komið fram að þau virka ekki. Við hljótum því að benda stjórnarflokkunum og hæstv. ríkisstjórn á að í þingnefndum eru fjölmörg mál sem snerta beint eða óbeint hag einstaklinga og fyrirtækja og bíða þess að vera mælt fyrir í þinginu. Allur þessi pakki lýtur að því að bæta stöðu efnahagsmála sem um leið bætir þá stöðu almennings. Bara frá framsóknarmönnum einum á þingi eru 11 þingmál sem annaðhvort beint eða óbeint eru til þess fallin að bæta þessa stöðu.

Hvað hefur ríkisstjórnin lagt fram? Ekkert. Ríkisstjórnin bendir áfram á þau vonlausu úrræði sem uppi eru. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir virðast hafa tekið afgerandi afstöðu með þeim sem stjórna fjármálakerfinu í landinu með því að fara ekki í aðgerðir sem takmarka hugsanlega eða taka í það minnsta á þeim sem fara með þessi völd í landinu. Eins og kom fram áðan hafa nú lífeyrissjóðirnir lýst því yfir að þeir ætli ekki að taka þátt í því að laga þessi lánsveð. Ríkissjóður á að bera það allt saman. Þeir ætla að vera áfram púkinn á fjósbitanum og horfa niður á almenning, horfa niður á þá sem borga í þessa sjóði og fría sig algerlega. Það er óþolandi hvernig lífeyrissjóðirnir á Íslandi koma fram við íslenska þjóð. Þeir ágætu stjórnendur sem þarna eru við stjórnvölinn taka ekkert mark á því að stærsti og líklega verðmætasti lífeyrir þúsunda Íslendinga er horfinn, eignin sem þetta fólk átti í húsnæði sínu. Við hljótum að gera þá kröfu að þessir aðilar (Forseti hringir.) komi nú niður á jörðina þar sem fólkið er og taki þátt.