145. löggjafarþing — 98. fundur,  14. apr. 2016.

mál forustumanna stjórnarflokkanna í Panama-skjölunum.

[11:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það að snúa fyrirspurnatímanum við en við skulum halda okkur við formið. Það er hann sem situr fyrir svörum. (Gripið fram í.) Það er eðlilegt að hann láti svar sitt snúast um fyrri ríkisstjórnir en það er vandræðaleg staðreynd, bæði fyrir hann og íslenskt samfélag, að hann skuli enn vera hér í forustu og hann verður að svara fyrir þann veruleika.

Hér hefur einhvern tíma komið fram að hæstv. ráðherra telji eðlilegt að hann mæli fyrir fjárlagafrumvarpi með einhverju móti fyrir haustkosningar og ég vil spyrja hann hvort ekki liggi fyrir, hvort hann sé ekki tilbúinn að staðfesta það af því að hann segir að stefnt skuli að haustkosningum, að ekki verði af nýju þingi. Hann sagði á tröppufundinum fræga að þannig yrði það.

Síðan bið ég hann að rifja upp með mér hvaða ríkisstjórn það var sem stóð fyrir því að hér yrðu settar CFC-reglur sem komu böndum á skatta á aflandsfélög.