131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Atvinnubrestur á Stöðvarfirði.

496. mál
[14:15]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fulltrúar allra flokka er eiga þingmenn í kjördæminu funduðu með sveitarstjórn Austurbyggðar, fulltrúa frá Þróunarstofu Austurlands og Samherja og var sá fundur málefnalegur og góður. Það er til mikillar fyrirmyndar hvernig þessir aðilar hafa haldið á málum og eru allir tilbúnir að axla samfélagslega ábyrgð í þessu erfiða máli. Ég geri ekki lítið úr því sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson kom inn á áðan, eðlilega hefur fólk miklar áhyggjur af framtíð sinni þar sem fyrirhugað er að fyrirtæki loki.

Það kemur samt ekki á óvart að það skuli vera hv. þingmaður Frjálslynda flokksins sem fer offari í málinu og ég mótmæli orðum hv. þingmanns um andvaraleysi hæstv. ráðherra. Verið er að vinna faglega í málinu og vonandi næst farsæl lausn. Málin leysast ekki með upphrópunum, heldur með samvinnu allra aðila.