132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:46]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað vonandi að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér varðandi það að engin hætta sé á ferðum. Því ég er fyllilega sammála hv. þingmanni í því að það er ekki vænleg framtíðarsýn að selja Ríkisútvarpið. Ég hins vegar er ekki eins öruggur með mig og hv. þingmaður og ég held að óskhyggja hv. þingmanns leiði hann nokkuð áleiðis vegna þess að það hefur komið fram að það eru ákveðnir aðilar í samstarfsflokki hv. þingmanns sem eru enn þeirrar skoðunar að það eigi að selja Ríkisútvarpið og Ríkisútvarpið sé óþarft.

Ég er ansi hræddur um að þetta sé aðeins tímabundinn áhugi hjá þessum hópi sem því miður er allt of áhrifamikill í stjórnarsamstarfinu. Það skyldi þó ekki vera að hluti af skýringunni væri sá að ákveðnir aðilar, sem þessum hópi af einhverjum ástæðum er í nöp við, eru að reka hér fjölmiðla í samfélaginu. Og meðan þannig sé ástatt telji þessi hópur eðlilegt að eitthvert „mótvægi“ sé við þá fjölmiðla. Það sé fyrst og fremst skýringin á þessu. En að þessi setning sem hv. þingmaður byggir allt sitt á, breyti einhverju, held ég sé rangt hjá hv. þingmanni og vitna aftur til þess sem ég sagði áðan að á fundi í menntamálanefnd voru í heimsókn m.a. nokkrir lögfræðingar sem höfðu komið nálægt þessum texta. Þar var fullyrt að þessi setning breytti engu miðað við þær setningar sem áður höfðu verið notaðar. Það væri alveg jafnt á með komið, þ.e. auðvitað væri ekki hægt að breyta þessu nema með lagabreytingu á Alþingi og það væri nóg að gera það með einföldum meiri hluta á þinginu. En það er ljóst að til að breyta þessum hlutum þarf einfaldan meiri hluta á Alþingi. Það hefur legið ljóst fyrir að ekki dygði að gera slíkt með einfaldri samþykkt (Forseti hringir.) í fjárlögum.