138. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2010.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég deili áhyggjum hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar af öryggismálum sjómanna og málefnum Landhelgisgæslu Íslands, ekki síst í ljósi þess að við vitum að niðurskurður og sparnaður er óhjákvæmilegur í ríkisrekstri, ekki bara í ár heldur á næstu árum. Og vissulega komu fram uggvekjandi upplýsingar á fundi með samgöngunefnd í morgun um þá framtíðarsýn sem Landhelgisgæslan hefur.

Það er grafalvarlegt mál ef þyrla númer þrjú í þyrluflotanum hverfur úr forsjá Gæslunnar. Það skiptir máli að hægt sé að manna þyrluvaktirnar og tryggja skjót viðbrögð og góðan viðbragðsflýti þegar slys ber að höndum, ekki síst úti á sjó. Hér skiptir líka forgangsröðun stofnunarinnar máli. Mér finnst vel athugandi og get tekið undir það með hv. þingmanni að varðskip verði selt til þess að halda þyrlu. Auðvitað væri samt æskilegast að komast hjá því. Ég tek undir og beini því til Landhelgisgæslunnar að huga vel að þeirri forgangsröðun. Það er þó alveg ljóst að því verður ekki þvingað upp á stofnunina hvernig sparnaðurinn kemur niður. Stofnunin verður sjálf að hafa forræði yfir því.

Þetta er engu að síður leið sem mér finnst ástæða til að forsvarsmenn Gæslunnar velti vel fyrir sér og mér finnst ástæða til að taka það upp í fullri alvöru við Gæsluna. Sömuleiðis finnst mér koma vel til greina að sameina eitthvað af skipakosti Hafrannsóknastofnunar með Landhelgisgæslunni. En ég ítreka það sem ég hef sagt, þetta þarf allt að vinnast í góðu samstarfi við Landhelgisgæsluna þannig að þeir hafi sannanlega sjálfir forræði (Forseti hringir.) yfir þessari forgangsröðun.