150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[21:14]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að tjá mig örlítið um þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Fyrsta frumvarpið var um aðgerðir vegna kórónuveirunnar og nú er þetta kallað frekari aðgerðir. Ég velti fyrir mér að ef annar slíkur pakki kemur kallist hann þá enn frekari aðgerðir og hef áhyggjur af því hvað fjórði pakkinn mun heita í framhaldi af þessu og hvað þá sá tíundi. Hvaða nafn skyldi honum verða gefið? Ég er ekki að gera grín að þessu, alls ekki, heldur ætla ég að leggja inn nokkur atriði og benda á.

Miðflokkurinn hefur lagt til að tryggingagjaldið verði fellt niður tímabundið, t.d. til næstu áramóta. Auðvitað má hugsa sér að lækka tryggingagjaldið eins og Viðreisn hefur boðað, þeir hafa fetað í okkar fótspor og boðað tillögur um að tryggingagjaldið verði lækkað um fjórðung til áramóta, sem gengur miklu skemur en okkar tillögur. Það má hugsa sér einhvern milliveg og að tíminn verði einhver annar, en við teljum mjög mikilvægt að tryggingagjaldið verði lækkað eða fellt niður tímabundið. Það er forsenda þess að fyrirtæki sem starfa hér innan lands sjái sér kleift að hafa starfsmenn í vinnu. Þetta er að sögn atvinnurekenda mjög íþyngjandi gjald þótt það sé, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði, ekki hátt, 6,35%, en það tekur í samfara öðrum útgjöldum. Við teljum hiklaust að ef gjaldið yrði fellt niður tímabundið eða lækkað verulega myndi það veita aukinn kraft í vinnumarkaðinn og koma í veg fyrir uppsagnir og gera mörgum atvinnurekendum kleift að halda í eitthvað af sínu starfsfólki eða ráða fleiri starfsmenn en ella. Við teljum þetta vera góða tillögu og væntum þess að ríkisstjórnin taki mið af því.

Við höfum einnig lagt til að tekjuskattur verði lækkaður tímabundið og stungum upp á 24% sem myndi virkilega hleypa nýju blóði í neyslu og atvinnulíf og ráðstöfunartekjur fólks á þessum tímum. Þetta er að sönnu mjög viðamikið og há tala, kostar gífurlega fjármuni, en við teljum að í því ástandi sem nú er dugi engar smáskammtalækningar. Við þurfum að taka vel á því. Lækkun á sköttum, þótt dýr sé, menn horfa kannski í það, er almenn aðgerð, snertir alla, kemur öllum til góða og hefur víðtækustu áhrifin. Við teljum að smáskammtalækningar með mjög mörgum, flóknum og tafsömum aðgerðum séu ekki rétta leiðin. Við höfum talað fyrir einföldum, almennum og skjótum aðgerðum í ætt við það sem ég hef nefnt með tryggingagjaldið og lækkun tekjuskattsins sem dæmi.

Ég ætlaði að tala um fleiri hluti. Ég ætlaði að tala um stöðu heimilanna nú þegar atvinnuleysi fer vaxandi. Slíkar atvinnuleysistölur hafa ekki sést lengi. Við í Miðflokknum teljum nauðsynlegt að stjórnvöld fari í aðgerðir til að verja heimilin þannig að við lendum ekki í sömu stöðu og eftir bankahrunið árið 2008 þegar, með aðgerðum stjórnvalda á þeim tíma, hinn almenni launamaður, heimilin og skuldarar voru sett til hliðar að verja fjármálakerfið sem olli alþekktum afleiðingum þegar a.m.k. 10.000 heimili voru boðin upp og seld ofan af fólki og tugir þúsunda Íslendinga misstu heimili sín. Stór hluti þeirra flutti úr landi og er ekki enn kominn til baka. Við teljum að ekki sé ráð nema í tíma sé tekið og komið sé í veg fyrir slíkar hamfarir að nýju með markvissum aðgerðum. Til dæmis höfum við talað fyrir því að festa og frysta vísitöluhækkanir. Vísitalan hefur hækkað örlítið og það er stór hætta á því að hún hækki verulega til viðbótar þar sem gengi gjaldmiðla hefur hækkað, dollarinn hefur hækkað um 17% síðustu 60 daga og evran um rúm 15%. Þetta er ekki komið fram í verðlagi nema að litlu leyti en mun mælast næstu vikur og mánuði og verða til þess að vísitalan mun óhjákvæmilega hækka með þeim afleiðingum að verðtryggð lán, þó að þau séu vissulega ekki eins stór hluti af lánum heimila og var fyrir tólf árum, en eldri lán sem fólk ber enn, munu hækka. Miðað við fasteignamarkaðinn í dag mun verð á fasteignum a.m.k. ekki hækka og hugsanlega lækka þannig að eign fólks í sínu húsnæði mun, svipað og í bankahruninu, trúlega lækka. Þessi hætta er fyrir hendi, herra forseti, og ég skora á stjórnvöld að fara að a.m.k. að undirbúa aðgerðir til að frysta og taka vísitöluna úr sambandi, ef verðbólgan fer af stað, vegna þess að þetta mun að sönnu þurfa undirbúnings við.

Á móti kemur, og það er vissulega rétt, að ýmislegt bendir líka til annars vegna þess að ef íbúðaverð lækkar og olíuverð hefur lækkað hefur það auðvitað vægi á móti því sem ég var að nefna. En 15% hækkun á innfluttum vörum mun verða til þess að vísitalan mun taka kipp upp á við næstu vikur þannig að ég skora á stjórnvöld að huga að þessu í næsta aðgerðapakka.

Ég ætla einnig að nefna innlenda framleiðslu í nokkrum köflum, í fyrsta lagi landbúnaðarframleiðslu. Ég tel að nú sé rétti tíminn, og ég held að það séu mjög margir sem eru sammála mér í því, mér hefur heyrst það á ræðumönnum hér í dag, til að efla ýmsan innlendan iðnað, landbúnað og garðyrkju o.s.frv. Það verður þá að birtast í einföldum, víðtækum og skjótum aðgerðum, til að mynda er rétti tíminn núna til að rétta garðyrkjubændum hjálparhönd og hvetja þá til aukinnar framleiðslu. Það mætti lækka verulega raforkuverð til þeirra, að raforkuverð til þeirra yrði á svipuðu verðbili og til stóriðju. Vissulega er þetta okkar stóriðja, garðyrkjan, og getur orðið það og getur orðið enn þá meiri en nú er fyrir innlenda neyslu og einnig til útflutnings. Ég hvet stjórnvöld til að hika ekki við að hleypa nýju blóði í landbúnaðinn og garðyrkjuna. Við erum með besta vatn í heimi til að rækta og stunda landbúnað. Við erum með heitt vatn í jörðu til að hita upp gróðurhús og við erum einnig með hreint loft og holla vöru sem er laus við flesta þá sjúkdóma sem aðrar þjóðir eru að berjast við. Við erum í fullum færum, herra forseti, til að efla núna þessa framleiðslu innan lands, enda er matvælaöryggi og fæðuöryggi orð sem menn nota mikið núna eftir að þessi veira kom upp.

Ég lagði einmitt fram fyrirspurn í haust til ráðherra hvað liði viðbúnaði hér gagnvart því að landið myndi lokast. Þessi hætta er fyrir hendi og hefur alltaf verið það. Nýleg dæmi eru t.d. inflúensufaraldurinn 2008 þar sem þetta var mjög nálæg hætta og í Eyjafjallagosinu var mjög nálæg hætta á að flutningsleiðir hingað myndu teppast eða tefjast. Og þeir sem muna ástandið haustdagana 2008 í hruninu muna að þá höfðum við ekki lánstraust og enginn vildi selja okkur neitt nema gegn beinhörðum peningum, helst afhenda þá beint yfir borðið. Þá var það líka mjög nálæg hætta að við myndum ekki sem þjóð geta keypt nauðsynjavörur hingað til lands. Þannig að ég spurði um þetta og svarið var í stuttu máli að það væru engar viðbúnaðaráætlanir ef slíkt myndi gerast. Menn vonuðu sem sagt að þetta myndi ekki gerast.

Við getum ekki leyft okkur það, herra forseti, að sitja og vona að ekkert gerist, vona að slæmir hlutir gerist ekki. Við verðum að búa okkur undir að þeir geti gerst og vera eins vel í stakk búin og við getum til að takast á við vandann þegar hann birtist okkur. Við eigum nóg af matvælum en við þurfum eldsneyti til að geta sótt þau, við þurfum eldsneyti á landbúnaðartæki til að yrkja jörðina og fá afurðir úr landbúnaði. Við þurfum eldsneyti á skipin til að sækja sjóinn til að ná í fisk. Hér þarf t.d. að vera birgðaeftirlit með eldsneyti þannig að ætíð sé nægilegt eldsneyti í landinu til þess að við getum verið sjálfum okkur nóg um tiltekinn tíma. Ég er ekki að segja hversu langur tími það er en það þarf að vera tiltekinn tími. Í svari ráðherra við fyrirspurn minni kom fram að eldsneytisbirgðir voru lægstar tvær vikur. Ég leyfi mér að hafa þá skoðun að það er of skammur tími fyrir öryggi okkar.

Ég ætla einnig að tala um hlut sem er mér mjög mikið hjartans mál og áhugamál. Það er skógrækt. Ég tel að stjórnvöld eigi núna að nýta tækifærið og efla skógrækt. Af hverju segi ég það? Í fyrsta lagi vegna þess að skógur sem búið er að planta hverfur ekki. Hann hverfur ekki þótt hér geisi veirufaraldur eða efnahagsþrengingar eða gjaldþrot verði í einhverjum atvinnugreinum eins og við Íslendingar höfum margoft á liðnum áratugum gengið í gegnum. Við höfum margoft gengið í gegnum það að einhver atvinnugrein vex mjög hratt og fellur jafn hratt aftur. Skógrækt er í rauninni innstæða, mjög örugg innstæða til framtíðar. Maður plantar trjám. Síðan þarf ekki að sinna þeim mjög mikið næstu ár og áratugi en maður getur alltaf tekið innstæðuna eða hluta af henni út síðar. Það er ekkert sem breytir því ef skynsamlega er unnið að málum. Þarna er gjaldeyrir sem ávaxtar sig sjálfur og maður getur tekið út eftir þörfum. Ég er að tala um nytjaskógrækt. Ég er ekki að tala um skóga til fegurðarauka, ég er að tala um skóga sem hægt er að nýta, þ.e. sem eldsneyti eins og gert er og skóga sem hægt er að nýta til bygginga síðar meir og spara þannig óhemju af gjaldeyri. Aukaafurðir eru auðvitað margar vegna þess að skógurinn veitir skjól fyrir aðra ræktun. Ræktun á öðrum jarðargróðri eykst í nágrenni við skóga vegna skjólsins og veðursældarinnar sem er í kringum skóg. Þetta eru aukainnlánsvextir af skógrækt. Skógur er góður til útivistar, góður fyrir dýraríkið, fyrir vatnsbúskap svæðisins og svona mætti lengi telja. Ég hef talað fyrir því að skógrækt verði aukin á ný vegna þess að við bankahrunið fyrir tólf árum dróst skógrækt mjög saman og fór niður í 3 milljónir trjáa sem plantað var árlega og situr enn þá í þeirri tölu. Ég tel að við eigum að auka skógrækt að nýju og helst að fjórfalda hana vegna þess að Ísland er skóglaust land. Þegar landnámsmenn komu hingað var landið viði vaxið milli fjalls og fjöru, eins og Ari fróði segir í Landnámu. Núna er skógur einungis örlítið brot af landinu. Við þurfum að bæta þar verulega úr, herra forseti. Ég hvet stjórnvöld, núna þegar gefa á í varðandi innlenda framleiðslu, að einbeita sér að skógrækt, margfalda hana og planta trjám til framtíðar.

Ég á hér ónefndan einn aðalkost við skóginn, það er ekki bara gjaldeyrir og timbur og sparnaður á flutningi með timbur til Íslands í framtíðinni heldur er skógrækt árangursríkasta aðferðin við að binda kolefni. Nú á þeim tímum sem menn tala mikið um að nauðsynlegt sé að við kolefnisjöfnum okkur sem þjóð þá þarf ekki nema 2% af landsvæði Íslands af skógi til að kolefnisjafna alla útblástur á Íslandi. Ef ösp væri plantað á 2% af Íslandi myndi slíkur skógur kolefnisjafna Ísland algerlega. Ég vil benda á þetta. Þetta eru algerir aukavextir á það sem ég er að tala um af skógrækt. Skógrækt er ekki bara timbur og gjaldeyrissparnaður, skjól og margt annað. Það er líka kolefnisjöfnun. Ég vil benda á það sem hefur verið áhugamál hæstv. umhverfisráðherra, að hér eigi að vaxa upp birkiskógar, sem er í sjálfu sér ágætt, gott og fallegt, en birkiskógur bindur ekki nema kannski einn tíunda hluta þess sem asparskógur myndi binda. Það þyrfti miklu stærra landsvæði til að binda samsvarandi magn af kolefni en öflugustu trjátegundir eins og ösp. Ég vil benda á þetta, þetta er aðgerð sem borgar sig og hægt er að hefjast strax handa í sumar með þessar aðgerðir. Þá má planta trjám, það má grisja skóga sem nú þegar eru. Þá má gera stíga í þessum skógum. Þarna er hægt að nota námsfólk og fólk sem skortir atvinnu og fá það til að vinna uppbyggilegt starf fyrir land og þjóð til framtíðar.