150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Ég held að ég visti hana á tölvuna hjá mér og hlusti á hana aftur síðar, hún var mjög góð. Ég myndi segja hið öfuga um andsvör hæstv. ráðherra. Ég vildi óska þess að ég gæti farið í andsvör við þau tilteknu andsvör því að mér fannst þau algerlega afleit.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í ákveðna snilld sem ég fann í 2. gr. frumvarpsins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir minntist á þetta líka, held ég. Það varðar það að mál eru sjálfkrafa send til kærunefndarinnar. Það hljómar rosalega vel svona fyrst og maður pælir ekkert í því, en svo þegar greinargerðin er lesin áttar maður sig á því að þessi dæmalausa snilld felur í sér að í stað þess að þurfa alltaf að bíða eftir því að umsækjandinn fari að velta fyrir sér réttindum sínum þá er málið sjálfkrafa sent til kærunefndar og síðan fellur kæran niður eftir 14 daga ef viðkomandi ákveður að senda ekki inn greinargerð eða gerir það ekki af einhverjum öðrum ástæðum. Fyrir mér lítur þetta út eins og það sé beinlínis verið að hanna kerfið og réttindi umsækjenda þannig til þess að spara ríkinu pening. (Forseti hringir.) Er það skilningur hv. þingmanns einnig?