151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

aðgerðir gegn atvinnuleysi.

[13:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna nýjum tóni sem ég þykist skynja hjá Samfylkingunni sem til skamms tíma talaði um að það vantaði svo gríðarlega mikið upp á og að við værum á rangri leið. En nú heyrist frekar að við séum vissulega á réttri leið, það vanti bara dálítið upp á. Nú hef ég ekki kynnt mér allar tillögur Samfylkingarinnar en ég heyri það sem sagt er um persónuafsláttinn. Í þeirri tillögu felst m.a. að stuðningurinn sem við höfum haft í hlutabótaleið og núna í ráðningarstyrk sé ófullnægjandi, að hvatinn sé ekki nægilega mikill og stuðningurinn sem skilar sér til heimilanna sé ófullnægjandi sömuleiðis. Ég veit ekki nákvæmlega til hvers er verið að vísa þar, nema þá kannski helst að það sé miður að heimilin hafi gengið á uppsafnaðan sparnað fyrri ára á þeim erfiða tíma sem liðinn er. En þá bendi ég á að okkur hefur tekist, með aðgerðum sem hafa verið í stöðugri þróun, og hafa tekið breytingum yfir tíma, að standa með heimilunum þannig að ráðstöfunartekjur jukust í fyrra í einhverri mestu efnahagslægð sem við höfum upplifað. Það hefur tekist að skapa skjól fyrir heimilin ef við horfum á það út frá vanskilaskrám. Við sjáum ekki þá bylgju vanskila sem maður hefði kannski mátt ætla í þessu mikla atvinnuleysi. En ég deili hins vegar markmiðinu. Ég deili því markmiði sem hv. þingmaður kemur hér upp með, sem er að tryggja viðspyrnu, standa með þeim sem hafa tapað störfum, að leggja alla áherslu á að skapa sem flest störf og koma fólki aftur til virkni. Það er alveg ofboðslega mikilvægt forgangsmál sem ég er sammála hv. þingmanni um. En ég hef hins vegar ekki sannfærst um að skynsamlegt sé að fara nákvæmlega þá leið sem rætt er um.