Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 99. fundur,  26. apr. 2023.

Húsnæðismál.

[15:49]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Forseti. Öll verðum við að hafa þak yfir höfuðið, það er ein af grunnþörfum okkar. Forgangsröðun fólks er enda oftast á þá leið að greiða af húsnæðisláni eða leigu áður en það greiðir nokkuð annað. Eftir hrun spruttu fram leigufélög fjársterkra aðila sem nýttu sér það að græða á þessari grunnþörf og því að fólk gerir yfirleitt hvað sem er áður en það lendir á götunni. Leigufélögin sögðust nýlega neyðast til að grípa til fordæmislausra hækkana á leigu á sama tíma og þau skila milljarða hagnaði. Á kostnað hverra er sá hagnaður? Jú, hann er á kostnað leigjenda sem hafa litla vörn fyrir þessum aðgerðum leigufélaganna. Á Íslandi er það ekki val að vera á leigumarkaði. Ríkisstjórnir Íslands hafa rekið séreignarstefnu í húsnæðismálum árum og áratugum saman. Leigumarkaðurinn hefur verið fyrir þau sem eiga ekki bakland til að styðja sig til fasteignakaupa. Stökkbreyting húsnæðisverðs síðustu ár fækkar síðan sífellt þeim sem geta keypt eignirnar. Það eru því þau sem standa höllustum fæti og minnst hafa milli handanna sem eru á leigumarkaði. Hjá þeim þarf lítið út af að bregða til að þau lendi í verulegum fjárhagsvanda og sá hópur stækkar sífellt.

En til hvaða bragðs hafa ríkisstjórnir þessa lands gripið í kjölfar hrunsins? Jú, að styrkja eignafólk til að eignast meira í eigin húsnæði, skattfrjálst. Á meðan mega leigjendur éta það sem úti frýs og taka á sig hækkanir leigufélaganna upp á tugi þúsunda á sama tíma og verðbólgan étur upp launin þeirra, laun sem eru nánast sköttuð tvöfalt á við tekjur leigusalanna.

Forseti. Í þessu landi búa tvær þjóðir. Hvernig hyggst ráðherra bregðast við þessu ástandi? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)