140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 147/2009 um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

571. mál
[23:42]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 147/2009 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn.

Nefndin fjallaði um málið og fékk til sín fulltrúa utanríkisráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis og velferðarráðuneytis. Málið var sent til umsagnar til velferðarnefndar en engar athugasemdir bárust.

Með greindri tilskipun eru settar reglur til að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kynferðis vegna viðskipta með vöru og þjónustu, með það að markmiði að koma til framkvæmda meginreglunni um jafna meðferð karla og kvenna.

Innleiðing tilskipunar 2004/113/EB kallar á lagabreytingar hér á landi og hyggst velferðarráðherra leggja fram lagafrumvarp á næsta löggjafarþingi til innleiðingar á ákvæðum hennar. Innleiðingin mun hafa í för með sér breytingar á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnframt verður skoðað hvort breyta þurfi lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Velferðarráðuneytið mun vinna að innleiðingunni í nánu samstarfi við efnahags- og viðskiptaráðuneytið og Jafnréttisstofu. Ef innleiðingin leiðir til breytinga á lögum um vátryggingarsamninga verður einnig haft samráð við Fjármálaeftirlitið og starfandi tryggingafélög á markaði. Ekki er gert ráð fyrir að efni tilskipunarinnar hafi í för með sér teljandi efnahagsleg eða stjórnsýsluleg áhrif. Í umræðum innan nefndarinnar komu meðal annars fram efasemdir hjá nokkrum nefndarmönnum um hvort tilskipunin stuðli í reynd að jafnrétti kynjanna en nefndin telur hins vegar óhjákvæmilegt samþykkja tillöguna.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér stendur Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, Gunnar Bragi Sveinsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ólöf Nordal og Mörður Árnason.