151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

endursendingar hælisleitenda.

[13:30]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Það breytir voðalega litlu að þeir séu komnir með alþjóðlega vernd í Grikklandi. Hæstv. dómsmálaráðherra hlýtur að vera sammála mér um það. Þegar ég tala um að kerfið í Grikklandi sé sprungið er það af því að Grikkland tekur vegna landfræðilegrar stöðu sinnar við gríðarlega miklum fjölda flóttafólks, auk þess að sinna fólki sem hefur fengið alþjóðlega vernd þar í landi. Mér finnst það ekki skipta neinu að ríkisstjórnir heims hafi ekki hætt endursendingum til Grikklands af því að það kemur þeim ríkisstjórnum augljóslega best. Það er augljóst. Ég sé ekkert sem gæti komið í veg fyrir það að Ísland gæti verið fremst í flokki hvað varðar mannúðlega meðferð á fólki og hætti einfaldlega að senda fólk í viðkvæmri stöðu til Grikklands. Grikkland er ekki öruggt ríki þó að ríkisstjórnin haldi því statt og stöðugt fram. Rauði krossinn og UNICEF hafa gefið út að það er ekki öruggt að senda fólk aftur til (Forseti hringir.) Grikklands, hver sem staða þess er innan hælisleitenda- eða flóttafólkskerfisins.