131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:38]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hélt áfram þeim ótrúlega samanburði sem Samfylkingin hefur haldið uppi á milli ríkisreiknings og fjárlaga. Menn bera stundum saman epli og appelsínur, og hvað er líkt með eplum og appelsínum? Þetta eru hvoru tveggja ávextir. Ríkisreikningur og fjárlög eru sannarlega hvort tveggja tæki þegar litið er á ríkisfjármálin og suma þætti þessara tveggja tækja er hægt að bera saman. En eins og margoft hefur komið fram og kom fram áðan í ræðu hæstv. fjmrh. þá er einfaldlega ekki hægt að bera saman alla þætti þessara tveggja tækja.

Eins og fram kom er ekki hægt að bera saman niðurstöður ríkisreiknings og fjárlaga. Það er hægt að bera saman tekjur ríkisreikningsins og fjárlaganna en þegar búið er að taka inn í ríkisreikninginn þætti varðandi ýmislegt í fjáraukalögum, gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga ríkisstarfsmanna, afskrifaðar skattakröfur og tekjur af sölu eigna umfram bókfært verðmæti þá erum við auðvitað ekki að tala um sömu hlutina. Ég verð að segja eins og er, hæstv. forseti, að þessi bleyjuhagfræði Samfylkingarinnar er einfaldlega ekki traustvekjandi. Þessar samanburðaraðferðir þeirra ganga hreinlega ekki upp.