131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:55]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að það sem máli skiptir er hvert innihald samkomulagsins var. Þetta innihald var tíundað í fjölmiðlum, í bréfi heilbrigðisráðuneytisins til Tryggingastofnunar. Þar var innihaldið tíundað í smáatriðum. En það er ekki alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það eitt skipti máli hvað í samkomulaginu stóð eða hvert innihald samkomulagsins var. Það skiptir nefnilega líka máli hvað kjósendum í væntanlegum alþingiskosningum var sagt og það var gert í fjölmiðlum í kjölfar vel auglýsts fréttamannafundar þar sem greint var frá þessu samkomulagi. Ég spyr og ítreka: Hvers vegna brást hæstv. heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin ekki við og leiðrétti það sem hún taldi rangt í fréttaflutningi af þessum fundum vegna þess að ég tek undir það að að sjálfsögðu skiptir máli hvert var innihald samningsins. Það er mergurinn málsins. En hitt skiptir ekki síður máli að hreint sé komið fram gagnvart kjósendum í fyrirhuguðum alþingiskosningum.