131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:50]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held ég hafi skýrt það ágætlega út í ræðu minni hverjir séu kostir einkaframtaksins og hverjir séu kostir frjálsrar samkeppni á markaði, hvort heldur á fjarskiptamarkaði eða bankamarkaði. Ég tók bankamarkaðinn sem dæmi. (Gripið fram í.) Hann hefur vaxið og stækkað og skilað þjóðfélaginu og mun skila þjóðfélaginu miklu meiri tekjum, miklu meiri skatttekjum en hann hefði gert ef ríkisviðskiptabankarnir hefðu ekki verið einkavæddir. Þegar til langs tíma er litið er því ekki verið að kasta á glæ milljörðum sem ríkisfyrirtækið Landssíminn hefur skilað á síðustu árum. (Gripið fram í.) Þetta hefur verið góður hagnaður og allt það.

Varðandi Kárahnjúkana þá get ég alveg sagt hv. þm. það að ég hefði kosið frekar að einkaaðilar hefðu átt þetta inngrip í íslenskt atvinnulíf, miklu frekar (Gripið fram í.) miklu frekar. (Forseti hringir.) En það var ekki gert. Á móti kemur (Forseti hringir.) að ég er þeirrar skoðunar að við verðum náttúrlega að nýta landið og náttúruna og þau auðæfi sem (Forseti hringir.) við búum við hér. (Gripið fram í.)