131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Verkfall kennara og stofnun Hávallaskóla.

[15:32]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort rétt sé að svara svona pólitískri tækifærismennsku. Ég undirstrika að mér finnst mjög umhugsunarvert hvernig sérstaklega Samfylkingin og Vinstri grænir hafa talað tungum tveim í þessu máli. Þeir segja eitt í ráðhúsi borgarinnar en koma síðan í þingið og blaðra um eitthvað allt annað. Ég vil fá samkvæmni og samræmi í málflutning þeirra.

Það er alveg ljóst að deilan er á milli sveitarfélaganna og grunnskólakennara. Ríkið mun ekki blanda sér inn í þá deilu. Ég vona svo innilega, eins og ég hef talað um bæði sem menntamálaráðherra með ábyrgð á menntamálum þjóðarinnar en líka sem foreldri grunnskólanemanda, að menn fari að ná saman. Við berum öll þá von í brjósti.

Það er rangt sem hér hefur komið fram að þeir fjármunir sem fluttust með grunnskólanum á sínum tíma hafi ekki verið nægir. Það dæmi er búið að gera upp og margoft hefur verið sýnt fram á að ríkið lagði fram auka milljarð, m.a. með tilliti til þess kostnaðar sem hlaust af innsetningunni. Þetta á hv. þm. að sjálfsögðu að vita. (Gripið fram í.)