131. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[16:52]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel að hv. þm. vilji ekki ræða stefnu Framsóknarflokksins sem virðist vera síbreytileg og vilji ræða um stefnu okkar í Frjálslynda flokknum. Mér finnst það bara mjög gott að ræða stefnu Frjálslynda flokksins vegna þess að við viljum hafa samkeppni og forsenda fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði er einmitt að undanskilja grunnnetið. Það var stefna Framsóknarflokksins, a.m.k. sumra framsóknarmanna. Nú virðist það breytt. Það þýðir heldur ekki að tala hér í stjórnarandstöðu og á móti því og þykjast ekki bera nokkra ábyrgð á því hvernig Síminn hefur verið rekinn undanfarin ár og það að vegir landsins séu meira og minna án fjarskipta og vera þá allt í einu í stjórnarandstöðu. Menn verða bara að horfast í augu við eigin ábyrgð í þessu máli. Síminn er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson styður.

Ég held einmitt að hann ætti að vera sammála okkur í Frjálslynda flokknum. Ef menn í raun og veru meina eitthvað með samkeppni á fjarskiptamarkaði, þá er ekkert vit í því að einkavæða grunnnetið, nema þá að það sé undanskilið og allir eigi jafnan aðgang að því. Ég er í ágætu sambandi við þá sem reka fjarskiptafyrirtæki og jafnvel á landsbyggðinni. Það er einmitt það sem þeir óttast mest, að grunnnetið fari og verði selt með og að það verði ekki ríkiseinokun eins og er núna heldur verði einokunin einkavædd.