131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[16:20]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hafi nú heldur betur verið að mistúlka eitthvað í ræðu minni vegna þess að ég talaði um það að langtímamarkmið ríkisstjórnarinnar væru skýr, hins vegar yrðum við að skoða það aukasvigrúm sem myndast.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að svigrúm muni myndast. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði einnig í ræðu sinni að enginn vafi léki á því að meira svigrúm yrði til staðar. Þetta er því ekki rétt hjá hv. þm. Við verðum líka að taka það með í reikninginn að mörg atriði eru ekki í langtímamarkmiði ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Sem betur fer ætlum við nú að gera eitthvað en þar er kveðið á um. Við vitum að í stjórnarsáttmála er sagt að það eigi að endurskoða virðisaukaskattskerfið og ég held að engan pólitískan vilja skorti til þess. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan er þar er allt undir og það verður mjög fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.

Framsóknarflokkurinn hefur aldrei sagt að hann sé á móti því að lækka virðisaukaskatt á matvæli. (Gripið fram í.) Hins vegar höfum við aldrei gefið neitt út á það hvort við viljum það hér og nú. En það er ekki rétt að segja að við viljum það ekki. Við viljum auðvitað hafa það þannig að við séum með svigrúm og þetta komi út þannig að fólk virkilega hagnist eitthvað á þessu.

Ég sagði það líka í andsvari fyrr í dag að mín persónulega skoðun væri sú að ég væri frekar með því að hækka barnabæturnar meira en að fara út í þessar aðgerðir, en auðvitað væri þetta kannski ágætt saman. Hv. þm. talaði um að ekki væri gert ráð fyrir fjármunum í þetta. Ég vil minna á að þarna er þriggja milljarða kr. pottur sem á að fara í barnabætur og önnur verkefni.