131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Virðisaukaskattur.

6. mál
[17:29]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má vel vera að hv. þm. skilji ekki öfugmælavísurnar þegar ég nefndi að olíuverðshækkunin, sem er orðin gífurleg og á sennilega rót sína að rekja til mikils hagvaxtar í Kína og á Indlandi, sé ekki alslæm fyrir Ísland. Auðvitað er hún slæm fyrir neytendur fyrst til að byrja með. En ég vil leiðrétta það að skattlagning á bensín er ekki prósentutala, það er krónutala. Ríkissjóður græðir ekki á þessari hækkun, ekki nema virðisaukaskattinn eins og á öðrum vörum.

Olíuverðshækkunin er ekkert endilega slæm fyrir Íslendinga. Ísland eru orkusöluland. Íslendingar eiga orku sem engin önnur þjóð í veröldinni á hvern íbúa. Hvað eigum við að gera annað en að gleðjast yfir því þegar orkuverð hækkar? Ég hef líka minnt á það að fiskverð var einu sinni mjög lágt á Íslandi, fáránlega lágt. Svo hækkaði það. Það kom auðvitað illa við íslenskar fjölskyldur sem borðuðu aðallega fisk en það kom vel fyrir þjóðarbúið því við flytjum út fisk og lifum á fiski. Það sem virðist því við fyrstu sýn vera slæmt getur oft verið gott. Núna malar fiskútflutningurinn gull, þó allir hafi ekki efni á því að kaupa fisk í öll mál.

Varðandi það að losa fólk við fátæktargildrur. Það er búið að byggja upp velferðarkerfi sem er með barnabætur, vaxtabætur, húsaleigubætur o.s.frv., allt meira og minna tekju- og eignatengt. Það þýðir að ef einhver maður sem er með 120 þús. kr. á mánuði ætlar að bæta tekjur sínar lendir hann fyrst í að borga tekjuskatt og útsvar, sem fer síhækkandi, og svo lendir hann í því að vera skertur í bótum. Það getur vel verið að hann standi upp eftir smátíma og segi: „Þetta borgar sig ekki, ég missi bætur hér og ég missi bætur þar og ég er að borga skatta, ég hætti þessu bara. Ég ætla ekkert að fá hærri tekjur. Ég ætla bara að sætta mig við þær tekjur sem ég hef og vera á því róli. Vera fátækur.“ Mér finnst að sumir menn vilji búa til fátæklinga.