131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:01]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er yfirleitt tilbúinn til þess að ræða skatthlutföll og breytingar á þeim í samskiptum við hv. 9. þm. Reykv. s., þó ég mundi að jafnaði fremur leggja til lækkun á hlutföllunum en hækkun eins og hann gerði hér í framsöguræðu sinni.

Mér fannst hins vegar rétt að það kæmi fram í þessari umræðu að þegar fjármagnstekjuskatti var komið á 1996, þá var allvíðtæk samstaða um að velja þá leið að hafa skatthlutfallið lágt en skattstofninn breiðan og undanþágur fáar. Það var ákveðin leið sem var valin. Vissulega hefði verið hægt að fara aðrar leiðir og slíkt var skoðað, en niðurstaðan var sú að betra væri að hafa skattstofninn breiðan og hlutfallið lágt, til þess að komast hjá ákveðnum vanköntum sem geta fylgt skattlagningu af þessu tagi, t.d. flækjum í kerfinu sem gera það að verkum að aðilar fara að sjá sér hag í því að spila á það með ýmsum hætti, nýta sér undanþáguheimildir, fyrir utan að flókið kerfi er jafnan erfiðara í framkvæmd.

Það má kannski líka benda á að víða þar sem hlutfallið er hærra, og hv. þm. vitnaði til þess í framsöguræðu sinni, þá eru undanþáguheimildir líka miklu fleiri, þannig að eins og hann réttilega nefndi er samanburður á prósentutölum ekki einhlítur í þessu sambandi.

Það er líka rétt athugað að sú leið var valin að skattleggja allar vaxtatekjur hér á landi með þessum hætti, ekki bara raunvextina, heldur líka verðbætur sem aðilar eru að fá ofan á fjármagnstekjur sínar. Það er atriði sem þyrfti auðvitað að skoða í þessu sambandi.

Varðandi tekjuaukann þá leyfi ég mér að efast um að tekjuaukinn yrði sá sem hv. þm. (Forseti hringir.) benti á, en kem kannski að því í síðara andsvari.