131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

7. mál
[11:03]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að það var allbreið samstaða um meginhugsunina að baki skattlagningar á fjármagn. Menn voru almennt á því að það ætti að skattleggja grunnvextina, hinar raunverulegu tekjur af fjármagninu. Hins vegar voru margir á því og ég var t.d. í þeim hópi sem vildu hafa þessa skattlagningu mun hærri en niðurstaðan varð. Mér finnst eðlilegt að stefna að því að skattlagning á fjármagn, á tekjur af fjármagni, verði sambærileg við það sem tíðkast með launin, að við reynum að samræma eða stefna að aukinni samræmingu í þessa átt.

Það sem hefur breyst frá árinu 1996 er að fjölgað hefur í þeim hópi sem hefur gríðarlegar tekjur af fjármagni. Það er aldeilis fráleitt að undanskilja þetta fólk frá því að greiða til samfélagsins á sambærilegan hátt og annað fólk gerir. Við skattleggjum launafólk og láglaunafólk. Við erum farin að skattleggja öryrkja, en hlífum þessum hópi sem er fullkomlega aflögufær. Ísland hefur breyst á undanförnum 10 árum að þessu leyti.