131. löggjafarþing — 9. fundur,  14. okt. 2004.

Strandsiglingar.

161. mál
[16:21]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert sem hv. þm. kom að varðandi flutningana, sjóflutninga versus landflutninga. Mér finnst hins vegar mjög hæpið að segja að eins og komið er sé það ríkisstjórninni að kenna. Það liggur ljóst fyrir eins og hv. þm. kom inn á í ræðu sinni að landflutningar eru miklu dýrari en sjóflutningar. Þess vegna endurtek ég það enn: Hvernig má það vera að samt sem áður flytji menn vörur í jafnríkum mæli með flutningabílum landleiðina, þrátt fyrir þá staðreynd að það er miklu ódýrara að flytja með skipi? Þetta er bara stóra spurningin og hvað svo sem ríkisstjórnin gerir mun það ekki breyta þessu neitt. Það er mér alveg ljóst.

Hins vegar eru það atvinnurekendurnir í hinni dreifðu byggð sem gætu breytt þessu. Ríkisstjórnin þarf ekki að koma til. Það liggur alveg ljóst fyrir hvor kosturinn er vænlegri og ódýrari.

Svo er auðvitað margt annað sem þarf að skoða í þessu. Ég nefni t.d. þennan Jöfnunarsjóð olíuvara. Það er greitt sérstaklega fyrir sjóflutninga þar. Þeir eru nánast lagðir af og farið að flytja allt með bílum en það er greitt úr jöfnunarsjóði eins og flutt sé með skipi. Það er í mörg horn að líta en ég get ekki fundið þeim orðum stað með neinum rökum að þetta sé ríkisstjórninni að kenna, þetta ástand á vegum og flutningur landleið versus sjóleið í ljósi þeirra staðreynda að það er ódýrara að flytja með skipi.

Hvers vegna er það ekki gert?