131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Þriðja kynslóð farsíma.

160. mál
[15:04]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað varðar leyfisgjaldið sem hér er lagt upp með þá var tekin ákvörðun um þá upphæð með þeim hætti að við erum að reyna að gera okkur í hugarlund að það skapi tilteknar tekjur án þess að það sé íþyngjandi fyrir viðkomandi fjarskiptafyrirtæki. Það liggja ekki að baki því neinir mjög flóknir útreikningar, heldur er reynt að nálgast þessar upphæðir þannig að þær geti flokkast undir það að vera sanngjarnar miðað við þau umfangsmiklu viðskipti sem geta orðið þarna í framtíðinni.

Hvað varðar þau mörk sem þingmaðurinn nefndi, þá liggur það ekki neitt sérstaklega fyrir hvaða stærð af sveitarfélögum eigi að rúmast innan þessa, heldur er þarna miðað við 60% útbreiðslu að lágmarki (Forseti hringir.) og það ætti að ná yfir langmest af þéttbýlinu.