131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[13:33]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Frakkland, sunnan Signu, er eitthvert mesta vínræktarland Evrópu. Það má heita hluti af almennri menntun að þekkja helstu vínræktarhéruð Frakka og helstu vín frá því landi. Því má ekki gleyma að sumar víntegundir heita beinlínis í höfuðið á frönskum héruðum, Champagne, Cognac. Þó eru auglýsingar á áfengi takmarkaðar verulega í Frakklandi. Þar eru t.d. engar áfengisauglýsingar sýndar í sjónvarpi, hvað sem líður tegund eða styrkleika. Í auglýsingum annars staðar má myndefni bara vera söluvaran sjálf með umbúðum sínum og í auglýsingatexta skal fyrst og fremst fjallað um uppruna og eðli viðkomandi víntegundar. Skilyrði er að þar sé líka viðvörun um afleiðingar ofneyslu áfengis samkvæmt lögum frá 1991.

Á Íslandi eru hins vegar óáreittar auglýsingar um allar tegundir áfengis. Þær eru í dagblöðum, þar á meðal Morgunblaðinu, í sjónvarpi, þar á meðal Skjá 1, hinu nýja ríkissjónvarpi, í tímaritum og utan húss á almannafæri, hvað sem lögin segja því að yfirvöld framfylgja ekki lögunum. Þess vegna hafa vínsalar, framleiðendur og innflytjendur tekið lögin í sínar hendur og ganga sífellt lengra í auglýsingamennsku sinni.

Það er athyglisvert fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra að auglýsingum um áfengi, sérstaklega um bjórtegundir, er fyrst og fremst ætlað að höfða til ungs fólks og til unglinga. Það er sá hópur sem auðveldast er að innræta neysluvenjur og vörutryggð, oftast með því að reyna að gera vörumerkið flott og kúl og sexað, samanber sjónvarpsauglýsingar um ungt fólk, fjör og bjór, um ungt fólk, rokk og bjór, um ungt fólk, hold og bjór.

Franskar vínauglýsingar eru barnaleikur miðað við Ísland. Ungt fólk í vínræktarlandinu Frakklandi nýtur miklu betri verndar fyrir áfengisáróðri árið 2004 en reyndin er á Íslandi.

Hæstv. heilbrigðisráðherra er hér til svara, m.a. vegna þess að það hefur reynst í geitarhús ullar að leita að spyrja um afstöðu hjá hæstv. dómsmálaráðherra, Birni Bjarnasyni, til áfengisauglýsinga. Hæstv. ráðherra veit að það er oft rætt um fjóra þætti í forvörnum við afleiðingum áfengis. Einn er aðgengi sem mjög hefur aukist á síðustu árum hér á landi og verður að telja eðlilega þróun. Annar er áfengiskaupaaldur sem í raun er þremur til fimm árum lægri en landslög kveða á um hér og við mörg teljum ástæðu til að skapa um betri venju og sátt með nýju aldursmarki. Þriðji er verð sem hér er þegar við efstu hugsanleg mörk. Fjórði er svo auglýsingarnar. Nú hlýtur hæstv. heilbrigðisráðherra að svara því hvort það er að hans ráðum að þar er um þessar mundir gefið sérstaklega eftir.

Forseti. Hæstv. ráðherra sagði um þetta mál nokkuð brattur á síðasta þingi, 5. maí, í vor að honum sýndist að ráðherrar í ríkisstjórninni þyrftu, með leyfi forseta, „að setjast niður og fara yfir málið og hvernig hægt er að útbúa löggjöf sem heldur“.

Og áfram sagði hæstv. ráðherra:

„Við verðum að útbúa löggjöfina þannig að það sé auðveldara að fara eftir henni en núna er en það kostar vinnu. Menn gera það ekki á öðru hné sér ...“ Það er rétt hjá ráðherranum.

Nú er hins vegar komið haust og liðinn hálfur sjötti vinnumánuður frá 5. maí sl. Þess vegna er hér spurt, og hæstv. ráðherra er í þetta sinn beðinn að svara skýrt og ekki með því að klaga spurningarnar í aðra:

Telur heilbrigðisráðherra núna í lagi að áfengi sé á Íslandi auglýst eins og almenn neysluvara? Sé svo ekki, hyggst heilbrigðisráðherra þá beita sér fyrir því að hætt verði að auglýsa áfengi í dagblöðum, tímaritum, sjónvarpi og annars staðar á almannafæri? Sé svo, með hvaða hætti má þá búast við að heilbrigðisráðherra beiti sér fyrir því að áfengisauglýsingar leggist af á Íslandi?