131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Verðsamráð olíufélaganna.

[15:06]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er meginstarf Alþingis að setja lög. Við höfum sett lög um Samkeppnisstofnun og við höfum sett lög um þau mál sem hér er verið að fjalla um. Samkeppnisstofnun hefur fellt úrskurð sinn og sett fram sektir á olíufélögin sem nema ef ég man rétt eitthvað milli 2 og 3 milljörðum króna. Síðan hefur komið fram að olíufélögin muni áfrýja þeim úrskurði, fyrst til úrskurðarnefndar og síðan hugsanlega til dómstóla. Jafnframt hefur komið fram að málefni olíufélaganna eru til lögreglurannsóknar.

Við verðum að sjálfsögðu að fara að lögum og mál þessi verða að halda áfram í samræmi við þau lög sem Alþingi hefur sett. Nú kemur formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og ætlast til þess að forsætisráðherra landsins og ríkisstjórn grípi inn í það ferli. Hefur hv. þm. ekki heyrt um aðskilnað dómsvalds, framkvæmdarvalds og löggjafarvalds? Eigum við að breyta því? Er hann að leggja til breytingu á stjórnarskránni? Nei, að sjálfsögðu eiga þessi mál að halda áfram í réttu ferli. Hér er um mjög alvarleg brot að ræða en við verðum að treysta á dómskerfi okkar í þessu máli. Við verðum að treysta á réttarkerfi okkar í þessu máli og við verðum að hafa þolinmæði til þess að þau mál gangi fram með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir.