131. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2004.

Græðarar.

246. mál
[16:57]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég vildi árétta og kom skýrlega fram í orðum hæstv. heilbrigðisráðherra er sá skilningur minn á þessu ákvæði í frumvarpinu að heilbrigðisstofnunum sé heimilt að koma til móts við óskir sjúklinga sem vilja nýta sér þetta þar sem það er í samræmi við stefnu stofnunarinnar. Í því hlýtur að felast að það er sjúklingunum að kostnaðarlausu.

Þetta er ekkert eina dæmið. Við vitum að t.d. á Landspítalanum fá menn geðheilbrigðisþjónustu. Innifalið í henni er þjónusta sálfræðinga. Samt tekur ríkið ekki þátt í kostnaði við sálfræðiþjónustu úti í bæ. Það sem þetta byggist á er það að við erum ekki með kostnað sjúklinga af innlögnum á sjúkrahús eða aðrar heilbrigðisstofnanir en ýmis sambærileg þjónusta og læknismeðferð kostar sjúklinga sem sækja slíkt utan stofnana.

Ég er bara mjög sátt við þessa skýringu hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er ágætt að hún fylgi okkur inn í nefndina. Það þýðir samt ekki aukin útgjöld fyrir heilbrigðiskerfið eða hið opinbera vegna þess að það fellur þá innan ramma þeirra fjárveitinga sem sjúkrahúsin eru með.