131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Símtöl til Grænlands.

112. mál
[15:42]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Það er náttúrlega með ólíkindum að við skulum þurfa að búa við það að öll símtöl okkar til næsta lands, Grænlands, þurfi að fara í gegnum Danmörku. Ábyggilega er ein af þessum ástæðum sú sama og samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndum benda á, það skortir á samkeppnina. Það má eiginlega segja að þeir sem búa á Grænlandi eða þurfa að hafa samskipti við Grænland héðan búi við einhvers konar átthagafjötra í þessu sambandi.

Ég verð að segja að mér finnst 60 kr. á mínútuna vera mjög hátt verð. Ég fór yfir taxtana á símtölum hjá hinum ýmsu símafyrirtækjum og þetta eru mjög háar upphæðir. Hjá Símanum er þetta jafndýrt og að hringja til Suður-Afríku og Suður-Kóreu eins og ég benti á áðan.

Ég vil samt þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og spyr hann hvort hann muni á einhvern hátt beita sér fyrir því að þessi símtöl verði lækkuð þannig að við búum við eðlilega taxta á símtölum milli þessara landa miðað við fjarlægðir.

Það er alveg ljóst að símafyrirtækin virðast hafa úr nógum fjármunum að spila, a.m.k. Síminn hf. sem virðist ekki vita aura sinna tal eða hvað hann eigi að gera við peningana. Því væri kannski ekki óeðlilegt að hann legði eitthvað á sig til að lækka verðið á símtölum milli þessara þjóða, sérstaklega í ljósi þess að við höfum lagt áherslu á það í okkar norræna samstarfi að bæta samskiptin milli Vestur-Norðurlandanna eins og kemur mjög skýrt fram í áætlun okkar fyrir þetta ár þar sem við erum í forustu fyrir Norðurlandaráðið.