131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Heilsugæslustöðin á Raufarhöfn.

120. mál
[18:24]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Á þskj. 120 hef ég leyft mér að leggja fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um framkvæmdir við heilsugæslustöðina á Raufarhöfn:

1. Hvers vegna eru framkvæmdir við heilsugæslustöðina á Raufarhöfn ekki hafnar?

2. Hvenær er áætlað að framkvæmdir hefjist og hvenær á þeim að ljúka?

3. Hver hefur verið undirbúningskostnaður við verkið fram til þessa?

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að ég spyr um þetta mál er sú að við þingmenn kjördæmisins sem komum oft til Raufarhafnar höfum orðið vör við það og átt viðtöl við fólk sem er mjög óánægt með hvað framkvæmdir við heilsugæslustöðina á Raufarhöfn hafa dregist mikið. Sem dæmi get ég sagt að 25. nóvember 2003, bráðum fyrir ári síðan, var undirritaður samningur við Tækniþing á Húsavík um hönnun á verkinu. Þar var líka sett fram að því skyldi lokið 15. janúar á þessu ári, 2004. Framkvæmdir áttu þá að hefjast í febrúar 2004 og verkið átti að vera tilbúið í lok árs 2004.

Virðulegi forseti. Engar framkvæmdir eru hafnar og Raufarhafnarbúar eru mjög langeygir eftir því að þessar sjálfsögðu framkvæmdir hefjist og að farið verði í gang með þetta til að bæta þá aðstöðu sem þarna er.

Raufarhafnarbúar búa vel hvað læknamál varðar, þeim er þjónað vel af heilsugæslulækni sem situr á Kópaskeri. Yfir því er ekki kvartað sem er dálítið sérstakt í litlum kaupstað úti á landi. Þarna er hins vegar húsakostur ekki góður og þess vegna hefur staðið til lengi, sumir segja í allt að fimm ár, að lagfæra heilsugæslustöðina á Raufarhöfn þannig að t.d. sé hægt að setja sjúkrabíl inn svo að vel sé og að bílstjórar komist inn í hann í raun og veru. Það er mikil kúnst að koma bílnum fyrir og þetta nefni ég vegna þess að sjúkrabíll er á þessu svæði, eins og alls staðar annars staðar, mjög mikilvægt öryggistæki.

Þær fyrirspurnir, virðulegi forseti, sem ég las upp vildi ég leggja fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra með þeirri ósk og von að hér komi svar um að verkið sé jafnvel byrjað og að ekki sé lengur verið að kasta á milli manna hugmyndum, tillögum eða vangaveltum heldur sé komið að tíma framkvæmda. Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra komi með góðar fréttir af þessu verki, eins og ég sagði áðan.