131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:41]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda mig við það sem var tilefni þess að ég óskaði eftir að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns. Hann nefnir það að Bandaríkin hafi verið vinaþjóð okkar í 50 ár og ég tek undir það. Við höfum átt mjög farsælt samstarf við þessa þjóð, bæði tvíhliða og ekki síður innan NATO. Ég er alveg sammála þessu. Hins vegar hefur mér þótt mjög óþægilegt núna allra síðustu ár hvað umræðan um varnarsamstarf okkar og Bandaríkjanna hefur verið kvik og hversu erfitt hefur verið að fá skýr svör frá Bandaríkjunum um framhald varnarsamningsins og áform Bandaríkjanna varðandi Keflavíkurflugvöll.

Bara til að nefna hvað hafi verið að gerast þá kom í fyrra háttsettur embættismaður hingað til lands. Því miður er ég ekki með nafnið hans hér og nú. Þeir hafa reyndar komið nokkrir og þá hafa oft orðið ágætar viðræður í sendiráðinu. Í þetta sinn hélt þessi tiltekni embættismaður opinn fund í Háskóla Íslands og formaður utanríkismálanefndar stýrði þessum fundi. Hann var mjög afdráttarlaus. Ef ég dreg saman það sem hann sagði þá var það það að fastar herstöðvar væru úreltar, að það væri úrelt að vera með vélar og hertæki bundin á einum stað, að til ættu að vera stöðvar á mikilvægum svæðum og þær ættu að vera færanlegar og að eftirsóknarvert væri að hafa stöðvar í Suður-Evrópu þar sem stutt væri til Miðausturlanda, Afríku o.s.frv. Hann sagði einnig að það væri markmiðið að loka herstöðvum þar sem Bandaríkin væru með þær í dag og svo rammt kvað að þessari umræðu að formaður utanríkismálanefndar sem stjórnaði fundinum spurði hvort viðkomandi væri að tala í nafni bandarískra stjórnvalda og varð fátt um svör.

En eftirtektarvert er að síðan hafa þessir hlutir verið að gerast. Öll skref sem hafa verið tekin hafa verið í þá átt sem þessi ágæti embættismaður kvað á um.