131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:56]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt að fræðimenn hafi uppi þau sjónarmið að EES-samningurinn standist ekki fullveldisákvæðið. Út á það gekk eiginlega öll umræðan fyrir tíu árum. Hún fjallaði um að við værum hér að brjóta gegn fullveldi Íslendinga, að við værum að brjóta stjórnarskrána og allt mögulegt. Þá voru háværar kröfur um að þetta mál yrði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, einmitt vegna þess. Maður kannast auðvitað við þessi rök. Ríkisstjórnin á þeim tíma tók málið mjög alvarlega og leitaði eftir því að fá helstu sérfræðinga til að fara ofan í málin. Á þeim grundvelli tókum við þessa pólitísku ákvörðun, að ganga í EES.

Flestir hafa talið að þetta hafi verið mikið heillaskref. Ég vakti sérstaka athygli á því hve mikill friður virtist allt í einu ríkja um Evrópumálin í þeim farvegi sem hæstv. ríkisstjórn hafði komið umræðunni. Enginn af þeim stjórnarandstöðuflokkum sem talaði í upphafi, enginn af fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna, sá ástæðu til þess að nefna orðið Evrópu einu orði. Ég tók eftir því að fulltrúi Samfylkingarinnar fór um víðan völl og sagði í lokin að ekki hafi verið hægt að fara yfir öll þau mál sem ástæða væri til að nefna. Hann taldi upp Íran, Pakistan og ég man ekki hvaða fleiri lönd hann taldi upp, en nefndi Evrópu ekki einu orði. Það var greinilega horfið úr huga hv. þingmanns.

Þessi mál eru í þeim ágæta farvegi núna (Gripið fram í.) að menn sjá ekki ástæðu til að ræða þessi mál á vettvangi (Gripið fram í.) stjórnmálanna. Við erum með sérstaka nefnd þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna eiga sæti. Við förum mjög rækilega í þessi mál og skoðum. Það sem blasir fyrst og fremst við er að staða EES-samningsins er góð. Það er ekkert sem kallar á sérstaka endurskoðun í þeim efnum. Það blasir líka við, eins og ég rakti áðan, að aðkoma okkar að ákvörðunarferlinu er margbreytilegri en maður hafði almennilega áttað sig á og möguleikar okkar á að hafa þar áhrif hafa verið ótrúlega víða.

Virðulegi forseti. Mér finnst að umræðan sem fram hefur farið í þessum litlu andsvörum og er fyrsti vísir að Evrópuumræðu við þessa umræðu (Forseti hringir.) fyrst og fremst sýna okkur þetta.