131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Innrásin í Írak og forsendur fyrir stuðningi íslenskra stjórnvalda.

3. mál
[15:04]

Sólveig Pétursdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svolítið sérstakt að vera í þessum stól og svara andsvörum frá háttvirtum þingmönnum, þar sem þeir hafa góðan tíma til þess hér á eftir og væntanlega síðar meir einnig til að ræða þetta mál.

Ég geri ráð fyrir því að háttvirtur þingmaður sem bar til mín þessa spurningu hafi sjálfur fylgst með umræðum um málið. Þegar ég sagði í ræðu minni að við höfum treyst bandamönnum okkar, íslensk stjórnvöld, þá er ég m.a. að vísa til þess að háttvirtur 1. flutningsmaður þessarar tillögu vísar til þess að hæstv. forsætisráðherra, þáverandi utanríkisráðherra, hafi talað um að fram hafi komið rangar upplýsingar um þetta mál. Ég benti enn fremur á að Íslendingar væru ekki með neina leyniþjónustu og það voru einfaldlega svör við þeim spurningum sem háttvirtur þingmaður kom með.