131. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[17:42]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki fyrr en á miðju ári 1983 sem ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks tók við eftir óstjórnina sem þar var á undan. Það vekur athygli mína að hv. þingmaður talar hvergi núna um þessa samninga við grunnskólakennara. Hann segir ekki orð um það hvað BSRB ætli að gera. BSRB hefur ekki látið í sér heyra, ekki bært á sér, eins og rjúpan í lynginu allt í einu. (Gripið fram í.) Hann hefur oft verið harðari í orðræðu hér á þinginu þar til núna. Nú lætur hann ekki á sér bæra.

Hann bíður. Nú er kominn fram samningurinn og það verður gaman að sjá hvaða kröfur þeir reisa, þeir BSRB-menn, í framhaldi af þessu. Ég vara við því enn og aftur og óttast að við förum hér ekki í kaupmáttaraukningu sem við viljum þó að allar stéttir haldi áfram að fá. Við verðum að hafa þolinmæði. Eins og ég hef sagt við fólk: Það er betra að taka styttri skref en fleiri, taka styttri skref en eitt stórt stökk, lenda svo beint úti í ánni og draga ekki yfir.