131. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2004.

Loftslagssamningurinn og stefna Íslands.

[15:08]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Það er mjög óvenjulegt í þessum fyrirspurnatímum að tekin séu upp ummæli okkar stjórnmálamanna í flokksstofnunum okkar. En látum gott heita að það sé gert.

Ég get alveg endurtekið það sem ég sagði á þessum fundi. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði og það er forsenda þeirrar uppbyggingar sem hefur verið farið í í sambandi við stóriðju í landinu. Þar er ekki verið að auka losun í heiminum, þvert á móti. Það er verið að nýta endurnýjanlega orkugjafa í þeim tilgangi að draga úr losun í heiminum. Það var þetta sem viðmælendur okkar skildu og þess vegna var fallist á ákvæðið. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að ef við hefðum ekki farið í þetta mál og fengið undanþáguna væri ekki verið að byggja upp þá stóriðju sem nú er verið að fara í í landinu. Það liggur alveg fyrir.

Ég veit að hv. þingmaður er algerlega á móti því og hv. þingmaður er á móti því að við förum í uppbyggingu á verðmætasköpun á þessum grundvelli. Þar með er hv. þingmaður að setja sig á móti bættum lífskjörum í landinu. Núverandi ríkisstjórn er ekki á móti bættum lífskjörum í landinu. (SJS: Ekki við heldur. Þetta er ósmekklegur málflutningur.) Þetta er ekki ósmekklegur málflutningur. (SJS: Að við séum á móti bættum lífskjörum?) Það er alveg ljóst að ef ekki er farið í þessa uppbyggingu verða ekki þau sömu lífskjör í landinu og annars verða. Þetta hljóta hv. þingmenn að skilja (Gripið fram í.) hvað svo sem þeir kalla oft fram í hér. Það er hins vegar ljóst að það er verið í þessari uppbyggingu og þess vegna getum við m.a. lækkað skatta. (Gripið fram í: Mengunarráðherra.)