131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Forvarnir í fíkniefnum.

102. mál
[12:49]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hreyfa þessu máli og veit að áhugi hans á því er einlægur. En hins vegar verð ég að mótmæla því að farið sé með rangt mál trekk í trekk vegna þess að til eru tölur um það sem varða þrjú ráðuneyti að lagður hefur verið til viðbótar 1 milljarður kr. til baráttunnar gegn fíkniefnum. Sú barátta fer fram á mörgum vígstöðvum. Hún fer fram í dómsmálaráðuneytinu varðandi aðflutningana, hún fer fram í félagsmálaráðuneytinu varðandi vistun og hún fer einnig fram hjá okkur varðandi lýðheilsu og forvarnir.

Það hefur verið rakið af hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur hve framlögin til SÁÁ hafi vaxið. Við gerðum þjónustusamning við SÁÁ til að formfesta það samstarf og tryggja þá þjónustu. Veitt hefur verið meiri þjónusta en samningurinn gerir ráð fyrir. Við þurfum að fara yfir þau mál. Við höfum viðurkennt fíkniefnameðferð SÁÁ á ópíumfíklum, við höfum lagt fram fjármagn til þess. Við þurfum að fara yfir heildina í þessum málum, athuga hvers kerfið er megnugt, við erum ætíð tilbúin til þess í heilbrigðisráðuneytinu og höfum alltaf verið. Ég átti nýlega viðræður við forráðamenn SÁÁ um þessi mál og heimsótti þá og hef fylgst grannt með þeim málum. Við erum ætíð til viðræðu um hvernig við leysum þau vandamál en við þurfum að nota öll úrræði sem við höfum í kerfinu. Nýlega var viðtal í Morgunblaðinu við forráðamann Barnaverndarstofu þar sem hann segir að hann hafi möguleika til að auka þjónustu sína á þessum vettvangi.