131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Frumkvöðlafræðsla.

334. mál
[14:17]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt að það komi fram að Íslendingar eru einna mestu frumkvöðlarnir í Evrópu. Þegar kemur að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi erum við Íslendingar í forustu hvað þessa þætti varðar og það er afar jákvætt að við skulum ekki vera allt of ferköntuð heldur förum svolítið áfram veginn og erum óhrædd við að takast á við ný tækifæri og fara inn á ný mið. Það má því segja að frumkvöðlahátturinn sé að mörgu leyti innbyggður í okkur Íslendinga sem er að sjálfsögðu mjög jákvætt.

Ég vil undirstrika að menntamálaráðuneytið kemur að sjálfsögðu til með að fylgjast mjög vel með og styðja áfram dyggilega við góð verkefni sem ég gat um áðan, allt með það að markmiði að undirbúa okkur til að meta hvort rétt sé að draga einmitt þessa námsgrein inn í framhaldsskólann og setja hana inn í námskrár sem slíka.

Ég vil líka undirstrika að það gefast mörg tækifæri til þess fyrir okkur þingheim m.a. þegar við förum að ræða styttingu framhaldsskólans því það sem tengist styttingu framhaldsskólans er algjör uppstokkun á námskránum og þar með gefst að sjálfsögðu tækifæri og þá fagfólkinu sérstaklega til að undirstrika hvaða þætti það telur best að taka inn í nýjar námskrár og nýja námskrárgerð.